See Vatnajokull

Tilurð þessa vefs - SeeVatnajokull.net

Það var í Skaftafelli þann 7. júní árið 2008 sem þessi ferð byrjaði fyrir alvöru. Ég hafði áður velt fyrir mér að sniðugt væri ef svona vefur yrði settur upp um þjóðgarðinn, samfélagsvefur, fyrir almenning af ýmsu þjóðerni að setja inn sínar myndir, video og frásagnir frá heimsókn á svæðið. Það gæti orðið gott kynningarefni.

Þennan dag var Vatnajökulsþjóðgarður stofnaður formlega, og eftir ræðu umhverfisráðherra, formanns stjórnar garðsins og væntanlegs framkvæmdastjóra hans stigu aðrir í pontu til að leggja orð í belg. Ein þeirra var Siv Friðleifsdóttir fyrrverandi umhverfisráðherra, sem hafði mál þjóðgarðsins á sinni könnu í um fimm ár á meðan unnið var að undirbúningi hans.

Í sínu máli minntist hún sérstaklega á tvo einstaklinga sem hefðu haft mikið með þetta að gera en sjaldnar væri talað um. Annar var líklega betur þekktur enda fyrrum alþingismaður sem hafði sett formlega pólitíska tillögu fram á Alþingi árið 1998, í mars, sem svo var samþykkt í breyttri mynd sem þingsályktun í mars 1999. Þetta var Hjörleifur Guttormsson. Hans hugmynd snerist um fjóra jöklaþjóðgarða í einu á Langjökli, Hofsjökli, Mýrdalsjökli og Vatnajökli. Augljóst er að það er ekki leiðin sem var valin. En hún var ekkert verri fyrir það og ljóst að einhverja tillögu þurfti að setja fram. En ráðandi pólitíkin þá, undir forystu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hafði áhuga á Vatnajökli og umhverfi, ekki á fjórum jökul-þjóðgörðum.

Hinn aðilinn var ég undirritaður, en ég setti fram faglegar, strategískar og ópólitískar tillögur um aðgerð af þessu tagi á árunum 1992, 1994, '95, '96, '97, og '98, og var víst fyrstur til að leggja það til sem hnitmiðaða, samandregna og sérstandandi tillögu (samkvæmt fyrrum meðlimum Náttúruverndarráðs þar með talið fyrrum formanni) og jafnframt sá eini til að tala um slíkt á árunum á eftir. Hér má taka fram að á Náttúruverndarþingi 1993 lagði Hjörleifur Guttormsson fram lista yfir 17 svæði á Austurlandi sem hugsanlega mætti friða, og þar var meðtalinn Vatnajökull. Hinsvegar var ekki fókuserað sérstaklega á hann umfram annað og tillagan náði ekki flugi, og Hjörleifur virðist ekki hafa minnst á Vatnajökul fyrir en haustið 1997, og svo í þingsályktunartillögu sinni 1998 þar sem jökullinn var einn fjögurra eins og áður segir. Kannski má telja skrýtið að ekki hafi verið meira fjallað um Vatnajökul en þetta í áratuga starfi náttúruverndarsinna hérlendis. Líklega má segja að Vatnajökull og aðrir jöklar hafi einfaldlega ekki verið í kastljósinu enda hefði verið auðvelt að koma íshvelum þeirra á náttúruminjaskrá (engir árekstrar við bændur eða virkjanir). En náttúruverndarsinnar beindu einfaldlega sjónum mest að annars konar náttúrufyrirbrigðum. Framlög frá Sverri undirrituðum á árunum 1992-1998 voru fjölmörg í formi blaðagreina, dreifirita, verðlaunatillagna í samkeppnum, bókarframlags, fyrirlestra, viðtala (þ.á.m. þar sem Morgunblaðið sá ástæðu til að birta forystugrein um málið í janúar 1997 þar sem undirritaður, þá háskólanemi, var nafngreindur sem höfundur tillögu að " stærsta þjóðgarð Evrópu á hálendinu") og fleira. Þessar hugmyndir snerust um verðmætasköpun, atvinnusköpun og styrkingu atvinnulífs á svæðunum kringum jökulinn, en voru ekki byggðar á neinum persónulegum áhuga höfundar á náttúruvernd. Allt þetta efni byggði á umtalsverðum rannsóknum, og var alltaf miðað við staðreyndir, en ekki skoðanir undirritaðs. Þetta allt frá 1992-1998, og jafnframt efni eftir, 2001-2008 má sjá á vefnum á slóðinni www.sverrir.info. Siv fylgdist með þessu frá 1997, en hún spjallaði við mig þá um vorið. Síðar varð hún umhverfisráðherra sem var heppilegt fyrirkomulag örlaganna. Hinsvegar er ljóst að á síðari stigum hefur mitt risastóra framlag að mestu fallið í gleymsku. Tek fram að á þessum tíma frá 1994 (til hausts 1997) til 1998 var framlag annarra ekkert, ekki ein setning. Ég talaði, en aðrir hlustuðu. Kannski af því margir skynjuðu að ég væri á jarðsprengjusvæði? Það hvernig mál þróuðust fyrir höfund hugmynda um friðlýsingu Vatnajökuls, í hringiðu deilna um óskylt en nálægt mál, Eyjabakka og Kárahnjúka, er athyglisvert, og kannski umhugsunarefni fyrir þá sem skilja samhengi grunn hugmynda og svo ákvarðana.

Nýjasta framlag mitt nú er 9 mínútna myndband um gjaldeyristekjur af Vatnajökulsþjóðgarði og alþjóðlegan samanburð, sem á þessari stundu (sept. 2011) er enn óbirt. En Vatnajökulsþjóðgarður er ekki bara til gamans. Ef miðað er við opinberar áætlanir að viðbættum hliðarskilyrðum sem eiga að vera sæmilega skynsamleg, og þær opinberu áætlanir eru ekki úr kortinu sé miðað við svipaðar áætlanir af þjóðgörðum erlendis sem eru í fullum rekstri, þá mætti gera ráð fyrir að veltuaukning í efnahagslífinu fram til ca. 2050 yrði kringum 700 milljarðar króna og skatttekjur af því kringum 200 milljarðar, nettó sem hagnaður, (gróft áætlað). Ég gerði tilraun til að núvirða verðmæti Vatnajökulsþjóðgarðs, sem sjá má á vefnum sverrir.info. Það er afar erfitt að komast að einni niðurstöðu þar en maður getur gefið sér ákveðnar stærðir, og þar kom fram að verðmætið (núvirði) gæti verið kringum 50 milljarða króna (sjóðstreymið er miklu, miklu hærra á öldinni), en annað og meira samkvæmt öðrum forsendum. (Ath hér þarf fólk að skilja núvirðisreikninga og hvernig þeir eru hugsaðir, smá rekstrarhagfræði 101). Verðmæti landsins sjálfs er brot af þessu, eins og það var áður verðmetið. Hver vill eiga þetta, og nýta það á snjallan hátt?

Það kom mér skemmtilega á óvart að Siv skyldi minnast á minn þátt. Það gerist svosem ekki oft að einhver geri það þó að vinnan hafi bæði verið sú eina sem fram fór, og mjög umfangsmikil (flestir búnir að gleyma þessu, auk þess sem ég gerði í því að vera sem minnst áberandi þegar ég setti þetta fram, en á þeim tíma var ég háskólanemi). Ef þú hefur einhvern tímann velt fyrir þér hver hafi sett fram sjálf faglegu rökin og tillögurnar fyrir þessu, og hver sé þar með arkitektinn að þessum stóra þjóðgarði í grunninn, (því ekki geta þau verið það sem aldrei sögðu orð í þessa átt - athugaðu, pólitíkin, þeir sem vilja standa í sviðsljósinu kannski, það kemur siðar), þá getur það varla verið annar en undirritaður. En athugið að fagleg, strategísk, rökstudd tillögugerð, ópólitísk, er ekki það sama og pólitísk meðferð málsins síðar af einstaklingum sem hafa miklu betra aðgengi að fjölmiðlum. Það voru ekki pólitíkusar sem fengu hugdettu, hugsuðu upp og skipulögðu faglega ýmis verk, en það voru þeir sem klipptu á borða framan við myndavélar. En það má Siv eiga að muna eftir mér og Hjörleifi og hafi hún þökk fyrir. Hún skildi vefinn, samhengið, milli þeirra sem hugsa og gera tillögu, og þeirra sem ákveða. Sumir skilja bara þá sem ákveða... Og til að jafna út pólitískt jafnvægi er rétt að nefna að ásamt Siv má segja að Björn Bjarnason hafi haft ákveðin áhrif í þessu máli í upphafi þess, sem og auðvitað Hjörleifur Guttormsson sem setti fram sína tillögu á Alþingi sem svo þróaðist í það sem samþykkt var og varð að veruleika 7. júní 2008.

Ég hugsaði að fyrst hún minntist á mig gæti ég allt eins varpað þessari hugmynd fram um frían mynda- og videovef fyrir almenning, sem gæti með tímanum hjálpað til við að kynna svæðið og þjóðgarðinn, hugðarefni mitt, sem væri gott fyrir byggðirnar og ferðaþjónustuna Ég vissi auðvitað að ég þyrfti sjálfur að setja þetta upp og gekk í það. Vefurinn var kominn upp í grunninn í júlí, mánuði síðar, og sæmilega tilbúinn í september 2008, og hugðist ég kynna vefinn snemma um haustið. Svo gerðist svolítið sem allir muna - hrun bankanna - og var ljóst að þjóðin hafði hugann við annað.

 

Það er ljóst að mikil er sú vinna sem ég lagði í þetta mál gegnum árin, frá 1992 til 1998, og svo áfram líka. Það má alveg upplýsa að bak við það var ein einföld hugsun, og hún er sú að það sé æskilegt að hver maður geri allavega eitthvað eitt í lífinu sem eigi að vera til góðs fyrir samfélagið, í stað þess að vera alltaf að eltast við eigin hagsmuni. Einhverskonar noblesse oblige... Þannig var þetta hugsað og er ég ekki að blekkja neitt með því. Að vísu átti þetta að standa yfir í ca 1-2 mánuði mest, í upphafi árs 1995, en svo teygðist úr þessu. Heldur betur. En svo virðist að árangurinn geti orðið ágætur, fjárhagslega og á annan hátt vonandi, þó að á málinu séu líka aðrar hliðar sem ekki er farið útí hér. Ef fleiri, jafnvel allir, gerðu þetta sama, að gera eitt alvöru verkefni að veruleika samfélagi til góðs í stað þessa tuðs og eiginhagsmunabaráttu myndi það örugglega hafa miklar og góðar afleiðingar. Það má koma fram.

 

Vefurinn SeeVatnajokull má segja að verði rödd fólksins, "voice of the visitor," og verður hann frjáls og óháður miðill rétt eins og hvert annað dagblað, ljósvakamiðill eða vefsíða.


Nú er kominn tími til að láta aðra vita þrátt fyrir alla umræðu í þjóðfélaginu. Vonandi hefur einhver gaman af þessu og setur inn myndir og myndskeið og ekki síst frásagnir og blogg sem leitarvélar leita uppi. Það væri æskilegt að halda vefnum að erlendum ferðamönnum, án efa munu einhverjir hafa áhuga á að skilja sínar minningar eftir hér. Það er líka hægt að senda inn myndir úr farsímanum, sjá leiðbeiningar um það á síðu þar sem ljósmyndum er hlaðið inn (það er búin til sérstakt tölvupóstfang fyrir viðkomandi félaga, tækni hjá Ning.com).

Vertu velkomin/n að stofna þitt eigið svæði og setja inn þitt persónulega efni. Auglýsingaefni á þessum síðum er hins vegar ekki leyft. Til þessi verður vefurinn www.seevatnajokull.com (.COM, ekki .NET sem er þessi hér).

Ef þú ert með fyrirtæki sem þjónustar ferðamenn á svæðinu verður bráðum boðin þjónustuskráning. Það verður að taka vægt verð við henni þar sem vistun hér á Ning er ekki lengur ókeypis eins og var, og að stofna og halda úti svona vef kallar alltaf á eitthvað umstang og kostnað. En það verður ýmislegt í boði í þeirri skráningu sem gerir hana að fýsilegum og fyllilega samkeppnisfærum kosti. Með góðri þátttöku fyrirtækja verður hægt að gera starfsemi SeeVatnajokull enn öflugri. 

Að lokum má taka fram að auglýsingaskráning er í samvinnu við Grípandi - myndskeið á vefnum, sem er þjónusta sem býður gerð myndskeiða fyrir vefinn (internet video) og markaðssetningu á vefnum, og við Marktak verkefnaþjónustu sem tekur að sér að vinna ýmis viðskipta- og markaðstengd verkefni. Vertu velkomin/n að líta á vefina.

Með kveðju og þökk fyrir heimsóknina

Sverrir Sv. Sigurðarson, viðskiptafræðingur Cand. Oecon. af markaðssviði HÍ.

stofnandi SeeVatnajokull.net og SeeVatnajokull.com.
höfundur margra pælinga um friðlýsingu Vatnajökuls og nágrennis, árin 1992-2011.
framkvæmdastjóri Grípandi og Marktaks.

 

Viðauki - Fjárhagslegt yfirlit.

Nú er vinsælt að skoða gaumgæfilega fjárhagslegar forsendur mála, eftir málalok síðustu ára. Það er sjálfsagt að gera það ef einhver er forvitinn.

Vinna undirritaðs skiptist í tvö tímabil, 1992-1998, og 2001-til í dag.

Á árunum 1994-1998 var ég nemandi við Háskóla Íslands um leið og unnið var að þróun og kynningu tillagna eins og ofan greinir. Verðlaun fékk ég í tveimur samkeppnum, samtals 570.000 krónur, en eftir að ríkisskattstjóri og Lánasjóður námsmanna höfðu meðhöndlað fjárhæðirnar stóðu eftir um 90.000 krónur á þeim tíma. Mín útgjöld vegna þessarar vinnu, ljósrit, umslög, póstsendingar, prent, bókakaup, bensín og slíkt voru líklega um 190.000. Útgjöld voru því um 100.000 krónur nettó hjá námsmanni.

Á seinna tímabili fór ég í að kynna niðurstöður athugana og útreikninga árin 2004-2005, sem talsverð vinna stóð á bakvið. Þetta má sjá á vefnum www.sverrir.info. Ég fékk styrk uppá 100.000 krónur af styrktarfé umhverfisráðherra, sem þá var Siv Friðleifsdóttir. Útgjöld vegna þessa voru um 180.000 krónur og greiddi ég því um 80.000 krónur nettó úr eigin vasa til að koma þessum niðurstöðum til um 300 manns.

Samtals hef ég borgað eitthvað rúmlega 200.000 krónur úr eigin vasa til að þróa og koma á framfæri tillögum um friðlýsingu Vatnajökuls og nágrennis, og áframhaldandi athuganir á því máli.

Mikil vinna hefur verið lögð í þetta mál af undirrituðum þessi nítján ár, frá 1992-2011, og eru engin laun fyrir hana. Ég óskaði svosem ekki eftir neinum launum. Vindar blésu bara í þessa átt. Lagt var í þessa vinnu í upphafi vegna þess að þá var kreppa á Íslandi og þörf fyrir ný störf. Það er athyglisvert mál í ljósi núverandi kreppu. Vinnan var unnin til að vera til gagns, fyrir land og þjóð, en einnig smávegis fyrir mann sjálfan en deila má um hvort að ávinningur hafi orðið þar.

Svo má skemmta sér við að velta vöngum yfir arðsemi þjóðar og ríkissjóðs, væntanlegs, af Vatnajökulsþjóðgarði, og hvert sé gildi þess að leggja í svona þróunarvinnu, og hvað þurfi til svo að fólk vilji slíkt á alla kanta. Það má bíða annarrar umræðu.

Að útbúa þennan vef kostaði smá pening en ekki mikinn þó, en talsverða vinnu. Myndskeið eru á Youtube og tengjast inn með "embed", og ljósmyndir sem vefstjóri setur inn koma flestar frá Flickr, með Creative Commons leyfi, frá Photobucket, með tilvísun, eða keypt Royalty free hjá 123rf.com. Kostnaður við að halda vefnum úti nemur fáeinum tugum þúsunda á ári, og hyggst ég sjá til hvort ég geti fengið til baka þá aura og jafnvel meira til.

Hér er því komið fram fjárhagslegt yfirlit undirbúningsþróunar að Vatnajökulsþjóðgarði, og varla hægt að gagnrýna með sömu formerkjum og margt sem gagnrýnt er, sem gerðist á Íslandi á liðnum árum. Kannski þetta geti orðið innblástur fyrir einhvern.

 

Views: 283

Tags: Vatnajökull, Vatnajökulsþjóðgarður, atvinna, blog, fjárhagslegt, náttúruvernd, virði

Comment

You need to be a member of See Vatnajokull to add comments!
Badge

Loading…

© 2019   Created by Vefstjori SeeVatnajokull.   Powered by

Badges  |  Report an Issue  |  Terms of Service